Fótbolti

Umboðsmaður: Luca Toni á ekki í viðræðum við Roma

Ómar Þorgeirsson skrifar
Luca Toni.
Luca Toni. Nordic photos/AFP

Ítalski landsliðsframherjinn Luca Toni hefur verið sterklega orðaður við félagsskipti frá Bayern München í sumar eftir kaup þýska félagsins á framherjunum Mario Gomez og Ivica Olic.

West Ham var um tíma orðað við leikmanninn og þá var Roma einnig komið inn í myndina í fyrradag og maður að nafni Jose Alberti tjáði sig um málið og kvaðst vera umboðsmaður Toni, en það reyndist ekki vera á rökum reist.

Umboðsmaðurinn Tullio Tinti segist einn sjá um mál framherjans og hafði aldrei heyrt minnst á Alberti fyrr en hann sá sögusagnirnar í ítölskum dagblöðum.

„Allt sem þessi Alberti sagði er tómur uppspuni. Ég veit ekki einu sinni hver þetta er og ef hann heldur áfram með þessum hætti þá munum við kæra hann. Ég sé einn um öll mál fyrir Toni og get staðfest að við eigum ekki í viðræðum við Roma.

Eins og staðan er núna er Toni leikmaður Bayern München og hann er að jafna sig af meiðslum til þess að geta hafið leiktíðina af krafti," segir hinn rétti umboðsmaður Toni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×