Erlent

Rakettumaðurinn lenti í sjónum

Óli Tynes skrifar
Yves Rossy á flugi.
Yves Rossy á flugi. MYND/AP

Svissneski rakettumaðurinn Yves Rossy endaði í sjónum í tilraun sinni til þess að fljúga í rakettubúningi sínum frá Marokkó til Spánar í dag.

Honum var bjargað um borð í þyrlu og er ekki talið að hann sé slasaður.

Rossy sem dags daglega er flugstjóri á farþegaþotum smíðaði sjálfur raktettugalla sinn. Það er sérhannaður vængur með fjórum örsmáum  þotuhreyflum sem hann spennir á sig.

Hann stekkur svo út úr þyrlu í 6.500 feta hæð og ræsir þotuhreyflana.

Reiknað var með að flugið frá Marokkó til Spánar tæki fimmtán mínútur. Þyrlan sem hann stökk úr fylgdi honum eftir. Dálítið vel á eftir þó því Rossy nær um 300 kílómetra hraða í gallanum sínum.

Ferðin byrjaði ágætlega. Rossy stökk út úr þyrlunni, ræsti hreyflana og þaut af stað. En þegar hann var kominn vel á veg lenti hann í þéttum skýjabakka.

Enginn blindflugsbúnaður er í rakettugallanum og Rossy virðist hafa gripið til þess ráðs að drepa á mótoronum og láta sig svífa í sjóinn í fallhlíf.

Rossy hafði áður flogið yfir Ermarsund frá Bretlandi til Frakklands og sú ferð gekk áætlega.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×