Hollenska knattspyrnufélagið Ajax hefur gert þriggja ára samning við þjálfarann Martin Jol sem stýrði liði Hamburg í þýsku úrvalsdeildinni í vetur.
Ajax hefur verið að leita að eftirmanni Marco van Basten undanfarið og hefur nú loksins fundið hann í fyrrum Tottenham-stjóranum Jol.
Jol hefur verið iðinn við að ná fimmta sætinu með liðum sínum undanfarið. Hann náði fimmta sætinu í ensku úrvalsdeildinni tvö ár í röð með Tottenham áður en hann var rekinn og stýrði svo Hamburg í fimmta sætið í vor eftir að hafa verið með liðið á toppnum um tíma.
Ajax olli vonbrigðum í Hollandi í vetur og náði ekki að vinna sér sæti í Meistaradeildinni.