Íslenski boltinn

Federer áfram en Djokovic úr leik

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Roger Federer fagnar sigrinum í dag.
Roger Federer fagnar sigrinum í dag. Nordic Photos / AFP

Roger Federer komst í dag áfram í undanúrslit einliðaleiks karla á Wimbledon-mótinu í tennis og mætir þar Þjóðverjanum Tommy Haas.

Þetta er sjöunda árið í röð sem Federer kemst í undanúrslit á Wimbledon en hann vann mótið frá árunum 2003 til 2007. Í fyrra tapaði hann fyrir Rafael Nadal í úrslitunum sem er ekki með í ár vegna meiðsla.

Federer vann nokkuð sannfærandi sigur á Króatanum Ivo Karlovic í dag, 6-3, 7-5 og 7-6.

Hann mætir Tommy Haas frá Þýskalandi í undanúrslitunum en Haas gerði sér lítið fyrir og vann Serbann Novak Djokovic í fjórum settum, 7-5, 7-6, 4-6 og 6-3. Djokovic er í þriðja sæti styrkleikalista mótsins, á eftir Federer og Andy Murray.

Murray er nú að keppa við Juan Carlos Ferrero frá Spáni og sigurvegari þeirra viðureignar mætir annað hvort Lleyton Hewitt eða Andy Roddick í hinni undanúrslitaviðureigninni.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×