Heimsmarkaðsverð á olíu skreið yfir 54 dollara á tunnuna í gærkvöldi í kjölfarið á mikilli uppsveiflu á mörkuðunum á Wall Street. Hækkun gekk síðan aðeins til baka í morgun er verðið lá í kringum 53,80 dollara.
Ástæða hækkunarinnar er bjartsýni meðal fjárfesta um að trilljón dollara efnahagspakki stjórnar Barak Obama í Bandaríkjunum muni skila tilætluðum árangri.
Hækkun á olíunni í þessum mánuði einum nemur 33% en olíuverðið fór í fyrsta sinn á árinu yfir 50 dollara á tunnuna í síðustu viku.
Það hefur einnig ýtt undir olíuverðshækkanir síðustu tveggja daga að fréttir bárust af því að fasteignamarkaðurinn í Bandaríkjunum hefði rétt mun meir úr kútnum undanfarna tvo mánuði en sérfræðingar höfðu spáð fyrir um.