Viðskipti erlent

Glitnir fær vernd gegn málsóknum í Bandaríkjunum

Dómarinn Stuart Bernstein hjá Gjaldþrotadómstólnum í South District í New York hefur úrskurðað að Glitnir fái vernd gegn málsóknum í Bandaríkjunum. Þar með getur Glitnir samið við lánadrottna sína í friði þar í landi á meðan þrotabú bankans verður gert upp hérlendis.

Í frétt um málið á Bloomberg-fréttaveitunni kemur fram að Bernstein tjáði lögmönnum Glitnis í Bandaríkjunum að hann vildi frekari upplýsingar um hvernig kröfurnar í þrotabúið yrðu meðhöndlaðar samkvæmt íslenskum lögum.

Í beiðni sinni um vernd gegn lögsóknum samkvæmt Kafla 15 í bandarísku gjaldþrotalöggjöfini kemur fram að Glitnir á eignir sem metnar eru á yfir milljarð dollara, eða rúmlega 124 milljarða kr. og að skuldirnar séu svipuð upphæð.

Fram kemur að frá árinum 2005 hefur bankinn gefið út stutt og löng skuldabréf/verðbréf í Bandaríkjunum að upphæð um 7 milljarðar dollara eða nær 1.000 milljarða kr..

Ein mótmæli komu fram við meðferð málsins fyrir dómstólnum í New York. Félagið SeaHAVN, sem staðsett er á Bresku Jómfrúareyjunum, lagðist gegn því að Glitnir fengi fyrrgreinda vernd.

SeaHAVN hefur áfrýjað úrskurði Bernsteins en félagið stendur nú í málaferlum gegn Glitni vegna lánsloforðs sem bankinn stóð ekki við. Vill SeaHAVN fá endurgreiddan lögfræðikostnað sinn í tengslum við lánsumsóknina.

 








Fleiri fréttir

Sjá meira


×