Handbolti

Óskar Bjarni: Undirbúningstímabilið svart og hvítt

Elvar Geir Magnússon skrifar
Óskar Bjarni Óskarsson.
Óskar Bjarni Óskarsson.

„Við höfum verið í þessum leik síðustu þrjú ár. Við töpuðum fyrir Stjörnunni og svo fyrir Haukum í fyrra svo það er gaman að byrja tímabilið með því að vinna," sagði Óskar Bjarni Óskarsson, þjálfari Vals, eftir sigurinn á Haukum í meistarakeppni HSÍ í kvöld.

„Undirbúningstímabilið hjá okkur hefur verið svart og hvítt. Við vorum slakir á Ragnarsmótinu en svo þjöppuðu strákarnir sér saman og eru farnir að spila almennilega vörn. Við eigum eftir að fínpússa sóknarleikinn eins og sást á leiknum í kvökd," sagði Óskar.

„Ég er nokkuð ánægður með stöðuna á liðinu en maður veit aldrei. Þetta verður mjög jafnt. Ef við nennum ekki að leggja neitt á okkur getum við tapað fyrir öllum," sagði Óskar en hann sagði að bæði lið hefðu verið furðu þung í leiknum í kvöld.

„Kannski er breiddin hjá þessum liðum ekki sú sama og í fyrra. Menn þurfa að taka ábyrgð á því að spila lengur og það er bara gaman að því. Þetta verður öðruvísi."

En hvaða lið telur Óskar að verði í toppbaráttu N1-deildarinnar í vetur? „Haukarnir verða þar klárlega, við ætlum að sjálfsögðu að vera þar og svo er þetta spurning. FH-ingarnir eru mjög sterkir finnst mér. Þeir eru ungir og efnilegir og hafa fína breidd. Akureyri er komið með reynda og góða menn. Flest liðin hafa góð byrjunarlið en það er spurning hvernig meiðslin verða," sagði Óskar Bjarni Óskarsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×