Handbolti

Hlynur Morthens: Bæði lið þung og þreytt

Elvar Geir Magnússon skrifar
Hlynur. Mynd/Heimasíða Vals.
Hlynur. Mynd/Heimasíða Vals.

Það tók markvörðinn Hlyn Morthens ekki langan tíma að vinna sinn fyrsta titil með Val. Hlíðarendaliðið vann Hauka í meistarakeppni HSÍ í kvöld. Þrátt fyrir að hafa farið víða og búa yfir mikilli reynslu er Hlynur ekki vanur því að hampa titlum.

„Það er ekki slæmt að byrja tímabilið svona. Ég varð meistari meistaranna með Stjörnunni fyrir tveimur árum þegar við einmitt unnum Val. Allir aðrir bikarar sem ég á eru bara úr æfingamótum," sagði Hlynur.

Valur vann Hauka 22-21 í kvöld en handboltinn var ekki í háum gæðaflokki. „Mér fannst það annars alveg skína í gegn að bæði lið voru að taka þátt í erfiðum mótum um síðustu helgi. Bæði lið voru þung og þreytt, mikið var af klaufamistökum sem munu sennilega ekki sjást eftir níu daga," sagði Hlynur.

„Það hefur verið stígandi í þessu hjá okkur frá Ragnarsmótinu þar sem við vorum ekki að spila vel, sérstaklega varnarlega. Vörnin hefur komið mjög sterk upp eftir það og ekki annað hægt en að standa sig þarna fyrir aftan þegar þeir berjast svona fyrir framan mann."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×