Íslenski boltinn

Umfjöllun: Selfyssingar buðu upp á dramatískan sigur í vígsluleiknum

Guðjón Árni Antoníusson og Sævar Þór Gíslason í leiknum í kvöld.
Guðjón Árni Antoníusson og Sævar Þór Gíslason í leiknum í kvöld. Mynd/ÓskarÓ
Selfyssingar sýndu ótrúlegan karakter þegar þeir tryggðu sér 3-2 sigur á Keflavík í dramatískum vígsluleik á nýja Selfossgrasinu í kvöld. Keflvíkingar fóru illa með frábæra stöðu í hálfleik en það dugði þeim ekki að vera 2-0 yfir því þeir réðu ekkert við baráttuglaða heimamenn í seinni hálfleiknum.

Magnús Þórir Matthíasson kom Keflavík í 1-0 strax á 12. mínútu eftir laglegt þríhyrningaspil við Hörð Sveinsson. Keflvíkingar voru mun sterkari í byrjun leiks og markið kom í beinu framhaldi af góðri byrjun þeirra.

Selfyssingar náðu aðeins að rétta úr kútnum þegar á leið hálfleikinn en gestirnir úr Keflavík vpru þéttir og alltaf stórhættulegir í hröðum sóknum sínum. Ein slík skilaði öðru markinu þegar Hörður Sveinsson slapp í gegn eftir stungusendingu Guðmundar Steinarssonar og skoraði í annarri tilraun.

Selfyssingar voru þó ekkert á því að gefast upp og komu mjög grimmir inn í seinni hálfleikinn. Það tók þá ekki nema sjö mínútur að minnka muninn. Jón Guðbrandsson skallaði þá aukaspyrnu Jean Stephane YaoYao aftur fyrir sig og yfir Lasse Jörgensen sem kom of seint út úr Keflavíkurmarkinu.

Hörður Sveinsson óð í færum í fyrri hálfleik og gat nánast innsiglað sigur Keflavíkur þegar hann komst einn í gegn á 63. mínútu en Jóhann Ólafur Sigurðsson bjargaði þá frábærlega í Selfossmarkinu.

Selfyssingar nýttu sér að Keflvíkingar voru værukærir í seinni hálfleik og að gestirnir litu út fyrir að hafa haldið að þetta væri komið þegar liðið var 2-0 yfir í hálfleik.

Varamaðurinn Viðar Örn Kjartansson fiskaði víti á 80. mínútu og Viktor Unnar Illugason steig svellkaldur fram. Viktor skoraði örugglega en var látinn endurtaka spyrnuna þar sem að samherji hans Jean Stephane YaoYao var of fljótur inn í teiginn. Viktor var ekki að láta það hafa áhrif á sig því hann sýndi mikinn kulda í seinna vítinu með því að lyfta boltanum í mitt markið.

Viðar Örn var ekki hættur því hann skoraði síðan sigurmarkið sjö mínútum síðar eftir að hafa fengið glæsilega stoðsendingu frá Viktori Unnar Illugasyni. Viðar sýndi mikla yfirvegunum og skoraði af öryggi. Það var líka við hæfi að það skyldi koma í hlut Viðars, sonar Kjartans Björnssonar, að tryggja Selfossi stórglæsilegan sigur í vígsluleiknum.

Selfyssingingar buðu því heldur betur upp á eftirminnilegan vígsluleik í kvöld og hver veit nema neistinn sem kviknaði í seinni hálfleik gæti dugað liðinu til að vinna sig út úr gríðarlega erfiðari stöðu í fallbaráttunni. Liðið byrjaði mótið vel og það var gaman að sjá aftur glytta í baráttuna og leikgleðina sem var svo ríkjandi í upphafi móts.

Keflvíkingar ollu enn á ný vonbrigðum. Þeir fengu vissulega færin til að vera löngu búnir að gera út um leikinn en værukærðin færðist yfir þá í seinni hálfleik og þetta tap þýðir að Willum Þór Þórsson og lærisveinar hans eru væntanlega endanlega úr leik í toppbaráttunni í sumar.



Selfoss-Keflavík 3-2


Selfosssvöllur

Dómari: Gunnar Jarl Jónsson (8)

Áhorfendur: 1239

Mörkin:

0-1 Magnús Þórir Matthíasson (12.)

0-2 Hörður Sveinsson (37.)

1-2 Jón Guðbrandsson (52.)

2-2 Viktor Unnar Illugason, víti (80.)

3-2 Viðar Örn Kjartansson (87.)

Tölfræðin:

Skot (á mark): 13-12 (6-8)

Varin skot: Jóhann 4 - Lasse 2

Horn: 9-2

Aukaspyrnur fengnar: 8-14

Rangstæður: 10-2

Selfoss (4-5-1)

Jóhann Ólafur Sigurðsson 7

Martin Dohlsten 5

Jón Guðbrandsson 6

Agnar Bragi Magnússon 6

Guðmundur Þórarinsson 6

Gunnar Rafn Borgþórsson 4

(46., Einar Ottó Antonsson 6)

Jean Stephane YaoYao 6

Jón Daði Böðvarsson 6

Arilíus Marteinsson 5

(76., Viðar Örn Kjartansson -)

Sævar Þór Gíslason 4

(85., Ingi Rafn Ingibergsson -)

Viktor Unnar Illugason 7 - Maður leiksins

Keflavík (4-5-1)

Lasse Jörgensen 5

Guðjón Árni Antoníusson 5

(86., Andri Steinn Birgisson -)

Bjarni Hólm Aðalsteinsson 6

Haraldur Freyr Guðmundsson 5

Alen Sutej 5

Einar Orri Einarsson 5

Hólmar Örn Rúnarsson 6

Magnús Sverrir Þorsteinsson 5

Guðmundur Steinarsson 5

(85., Brynjar Guðmundsson -)

Magnús Þórir Matthíasson 5

Hörður Sveinsson 5










Fleiri fréttir

Sjá meira


×