Erlent

Englendingar trylltir út í FIFA

Óli Tynes skrifar
Englendingar sendu sannkallað stórskotalið til Sviss: David Beckham, Vilhjálm Prins og David Cameron forsætisráðherra. Það dugði ekki til.
Englendingar sendu sannkallað stórskotalið til Sviss: David Beckham, Vilhjálm Prins og David Cameron forsætisráðherra. Það dugði ekki til.

Breskir fjölmiðlar eru sumir nánast trylltir yfir því að England skyldi ekki fá heimsmeistaramótið í knattspyrnu árið 2018. Ekki nóg með að þeir fái ekki að halda mótið heldur biðu þeir svíðandi ósigur. Fengu ekki nema tvö atkvæði af 22. Og annað þeirra atkvæða var náttúrlega frá þeirra eigin fulltrúa. England féll því út strax í fyrstu atkvæðagreiðslunni. Fjölmiðlar eru sannfærðir um að það sé maðkur í mysunni.

Það kann líka að vera að eitthvað sé til í því. Nefnd frá FIFA heimsótti öll löndin sem sóttu um að fá að halda mótið. Hennar mat var að tæknileg útfærsla Breta í umsókninni væri langbest. Katar var hinsvegar flokkað með mestu áhættuna. FIFA virðist hafa leitt þessar niðurstöður algerlega hjá sér því Rússar fengu mótið 2018 og Katar árið 2022.

Bresku fjölmiðlarnir eru margir sannfærðir um að FIFA hafi þarna verið að hefna sín fyrir umfjöllun og ásakanir BBC um spillingu innan sambandsins. Daily Express segir að Sepp Blatter forseti FIFA hafi minnt menn á umfjöllun BBC áður en atkvæðagreiðslan hófst.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×