Innlent

Tilraun til heilaþvottar

Guðrún Dadda Ásmundardóttir, iðjuþjálfi og skuldari í greiðsluvanda.
Guðrún Dadda Ásmundardóttir, iðjuþjálfi og skuldari í greiðsluvanda.
Fimm manna fjölskylda í 80 fermetra blokkaríbúð í Hafnarfirði telur sig engu bættari eftir að stjórnvöld og fjármálakerfið gáfu sitt lokasvar í skuldamálum heimilanna. Þetta segir móðirin, sem kallar útspil gærdagsins tilraun til heilaþvottar.

Þau keyptu íbúðina 2004, þá með eitt barn, nú eru þau þrjú og lánið segir Guðrún Dadda Ásmundardóttir að hafi hækkað úr 14 milljónum í rúmar 20. Íbúðin er metin á rúmar 16, þau geti ekki selt, og geti ekki staðið undir greiðslubyrðinni.

Brynjólfur eiginmaður Guðrúnar er járnabindingamaður með nóg að gera í uppsveiflunni. Guðrún segir að fyrirtækið sem hann starfaði hjá hafi misst sjö verkefni á sjö dögum í lok september 2008. Tekjurnar hrundu um 60% á nokkrum mánuðum, segir Guðrún Dadda. „Ekki gat hann sest upp í sófa og sagt ég er úr leik." Hann er því á námslánum en hún er í fullu starfi sem iðjuþjálfi. „Við viljum standa við okkar skuldbindingar en við skrifuðum aldrei upp á það að borga 110 þúsund á mánuði fyrir þessa litlu íbúð."

Guðrún telur að aðgerðirnar sem voru kynntar í gær muni engu breyta fyrir fjölskylduna. Hún hefur rýnt í aðgerðirnar sem kynntar voru í gær og telur þær í engu bæta við þá sértæku skuldaaðlögun niður að 110% sem bankinn hafði þegar boðið þeim.

„Ég verð endalaust vonsvikinn. Það er ekki sanngirni í þessu. Í morgun hugsaði ég með mér að þetta væri eins og Stokkhólms-syndrom. Það er verið að heilaþvo okkur endalaust þannig að ég upplifi það að ég núna að vera þakklát fyrir það að mega bara borga 110% veð af íbúðinni."

Viljayfirlýsing gærdagsins segi að því meiri áhættu sem fólk hafi tekið því betur komi fólk út úr þessum aðgerðum. „Á kostnað þeirra sem tóku enga áhættu," segir Guðrún.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×