Innlent

Undirbúningsframkvæmdir við Búðarhálsvirkjun ekki enn hafnar

Undirbúningsframkvæmdir við Búðarhálsvirkjun, sem mikilvægt þótti að vinna í sumar, hafa enn ekki hafist vegna ágreinings Landsvirkjunar og lægstbjóðanda og gæti svo farið að verkið tefðist um heilt ár. Þá hefur Landsvirkjun enn ekki tekist að fjármagna verkið í heild.

Ákvörðun um að setja virkjanaframkvæmdir við Búðarháls á fulla ferð hafa ýmsir séð fyrir sér að gæti orðið táknrænt upphaf endurreisnar atvinnulífsins. Iðnaðarráðherra taldi að minnsta kosti ástæðu til að vera á blaðamannafundi Landsvirkjunar í febrúar í vetur þegar tilkynnt var að undirbúningsframkvæmdir færu af stað í vor og stefnt væri að því að fjármögnun lyki á vordögum svo unnt yrði að bjóða meginverkið út fyrir mitt þetta ár.

En það virðist nú samt vera að gerast því að á Búðarhálsi sjást enn engar vinnuvélar. Ástæðan er sú, að sögn upplýsingafulltrúa Landsvirkjunar, að fyrirtækið ákvað að hafna tilboði lægstbjóðanda á þeirri forsendu að sá hafði ekki reynslu af jarðgangagerð, sem var skilyrði. Lægstbjóðandi kærði þá ákvörðun og er nú beðið úrskurðar Kærunefndar útboðsmála. Hvort töfin valdi ársfrestun við Búðarháls svarar Landsvirkjun að það sé ekki vitað. Þá lýsti forstjóri Landsvirkjunar bjartsýni í febrúar um að fjármögnun yrði lokið fyrir mitt ár og útboð alls verksins var þá áformað nú á vordögum. Það hefur ekki gengið eftir.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×