Innlent

Fundað um færslu Markarfljóts í dag

Ósar Markarfljóts
Ósar Markarfljóts

Opinn upplýsingafndur vegna fyrirhugaðrar færslu Markarfljóts verður haldinn í félagsheimilinu Heimalandi undir Eyjafjöllum í dag klukkan tvö. Ísólfur Gylfi Pálmason, sveitarstjóri Rangárþings eystra, boðaði til fundarins í síðustu viku eftir að athugasemdir komu fram við ákvörðun um að flytja ósa Markarfljóts um tvo kílómetra til austurs.

Sigurður Áss Grétarsson og Gísli Viggósson frá Siglingastofnun munu gera grein fyrir verkinu en einnig taka til máls Stefán Thors, skipulagsstjóri ríkisins, sem og fulltrúar Umhverfisstofnunar, landeigenda, Landgræðslu og Vegagerðar.

Tilkynning Siglingastofnunar í síðustu viku um að Ögmundur Jónasson samgönguráðherra hefði fallist á færslu fljótsins, sem eina af þremur aðgerðum til að bjarga Landeyjahöfn, kom mörgum í opna skjöldu, þar á meðal öðrum aðilum í stjórnkerfinu. Ýmsar spurningar vöknuðu eins og hvort slík aðgerð stæðist vatnalög og hvort hún þyrfti ekki að fara fyrst í skipulagsferli og umhverfismat. Þá kom tilkynningin flatt upp á landeigendur og benti sveitarstjórinn á að hafa þyrfti samráð við þá, ef færa ætti Markarfljót yfir jarðir þeirra.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×