Erlent

Óttast nýja borgarastyrjöld

Mótmæli á götum úti í norðurhluta landsins.  fréttablaðið/ap
Mótmæli á götum úti í norðurhluta landsins. fréttablaðið/ap
Óttast er að borgarastyrjöld brjótist út á Fílabeinsströndinni í kjölfar forsetakosninganna. Thabo Mbeki, fyrrverandi forseti Suður-Afríku reynir nú að miðla málum í deilunni um hver sé forseti landsins.

Alassane Ouattara, frambjóðandi stjórnarandstöðunnar, var lýstur sigurvegari í kosningunum fyrir rúmri viku og alþjóðasamfélagið hefur viðurkennt Ouattara sem forseta landsins. Stjórnlagadómstóll sneri úrslitunum hins vegar við og sagði Laurent Gbagbo, forseta landsins til tíu ára, hafa sigrað í kosningunum. Gbagbo hefur stuðning dómstólsins, sem og hersins og ríkisfjölmiðla. Hann sór embættiseið um helgina og Ouattara segist einnig hafa gert það.

Aðeins eru þrjú ár síðan landið sameinaðist opinberlega eftir borgarastyrjöld sem skipti því í tvennt. Fylgi frambjóðendanna tveggja skiptist landfræðilega, Ouattara nýtur mikils fylgis í norðurhlutanum og Gbagbo í suðri. Því er talið að borgarastyrjöld gæti nú hafist á nýjan leik. Greint hefur verið frá dauðsföllum frá því að átök hörðnuðu fyrir helgi, en þau hafa ekki fengist staðfest. - þeb



Fleiri fréttir

Sjá meira


×