Erlent

Skjalið var lagt á auðan stól

Thorbjörn Jagland, formaður norsku Nóbelsnefndarinnar, við auðan stól verðlaunahafans, kínverska andófsmannsins Liu Xiaobo. fréttablaðið/AP
Thorbjörn Jagland, formaður norsku Nóbelsnefndarinnar, við auðan stól verðlaunahafans, kínverska andófsmannsins Liu Xiaobo. fréttablaðið/AP
Um það bil þúsund manns fylgdust með hátíðlegri athöfn í ráðhúsinu í Ósló í gær, þar sem Thorbjörn Jagland, formaður norsku Nóbelsnefndarinnar, lagði verðlaunaskjal ársins á auðan stól kínverska andófsmannsins Liu Xiaobo.

Liu fékk ekki leyfi kínverskra stjórnvalda til að ferðast til Noregs að taka við verðlaununum.  „Hann er í einangrun í fangelsi í norðaustanverðu Kína,“ sagði Jagland í ræðu sinni. „Sú staðreynd ein sýnir að verðlaunin voru nauðsynleg og viðeigandi.“

Hann tók fram að verðlaununum væri ekki beint gegn Kína og sagði Kínverja verða að venjast því, sem stórveldi, að þurfa að sæta gagnrýni og umræðum.

Kínversk stjórnvöld eru ævareið norsku Nóbelsnefndinni, norskum stjórnvöldum og öllum þeim ríkjum sem sendu fulltrúa sinn til athafnar­innar í gær.

Eiginkona Liu Xiaobo er í stofufangelsi og fékk heldur ekki að fara til Noregs. Liu er fimmti verðlaunahafinn sem kemst ekki til Óslóar að taka á móti verðlaununum vegna andstöðu stjórnvalda.

Jafnan hefur þó einhver nákominn verðlaunahafanum getað mætt á athöfnina til að taka við verðlaununum, þangað til núna að enginn fékk leyfi til að fara.

Barack Obama Bandaríkjaforseti sendi frá sér yfirlýsingu í gær og hvatti kínversk stjórnvöld til að láta Liu lausan. „Mannréttindi eru algild – þau tilheyra ekki einni þjóð, heimshluta eða trúarbrögðum,“ sagði Obama, sem fékk friðarverðlaunin í fyrra og sagðist þá sjálfur ekki almennilega skilja hvers vegna. Hann sagðist virða þann mikla árangur sem Kínverjar hefðu náð í því að koma fólki úr fátækt til bjargálna, og sagðist vissulega sammála því að til mannréttinda teldist sú mannlega reisn sem frelsi undan skorti gæfi. „En Liu minnir okkur á að mannleg reisn er einnig komin undir framþróun lýðræðis, opins samfélags og réttarríkis.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×