Erlent

Ekki til viðræðu um að hætta

Manouchehr Mottaki, utanríkisráðherra Írans (til vinstri), heimsótti Grikkland sama dag og fulltrúar Írans funduðu um kjarnorkumál í Sviss. Fréttablaðið/AP
Manouchehr Mottaki, utanríkisráðherra Írans (til vinstri), heimsótti Grikkland sama dag og fulltrúar Írans funduðu um kjarnorkumál í Sviss. Fréttablaðið/AP
Fulltrúar íranskra stjórnvalda ræddu í gær við fulltrúa sex ríkja um kjarnorkuáætlun landsins. Þetta eru fyrstu viðræðurnar í meira en ár sem írönsk stjórnvöld samþykkja að taka þátt í. Þær halda áfram á næstu dögum.

Fulltrúar Íran hittu samningamenn frá Bandaríkjunum, Rússlandi, Kína, Bretlandi, Frakklandi og Þýskalandi í Genf í Sviss í gær, ásamt yfirmanni utanríkismála hjá Evrópusambandinu.

Þar ítrekuðu fulltrúar ríkjanna sex þá kröfu að stjórnvöld í Teheran í Íran hættu alfarið við kjarnorkuáætlun sína. Því höfnuðu fulltrúar Íran strax, og sögðust ekki til viðræðu um slíkt.

Stjórnvöld í Teheran fullyrða að þau ætli ekki að koma sér upp kjarnorkuvopnum, heldur ætli þau aðeins að framleiða raforku í kjarnorkuverum sínum.

Fulltrúar íranskra stjórnvalda fullyrtu raunar að tilgangur fundarins væri allt annar en að ræða um kjarnorkumál, en hátt settir embættismenn hafa staðfest að rætt hafi verið fátt annað en kjarnorkumálin á fundinum.

Yfirmaður kjarnorkuáætlunar Írans sagði á sunnudag að vísindamenn í landinu hafi flutt úraníum í kjarnorkuver í fyrsta skipti. Bannað er að flytja úran til landsins, og mikilvægt fyrir stjórnvöld þar að komast hjá þeim viðskiptahindrunum. - bj



Fleiri fréttir

Sjá meira


×