Erlent

Ísraelar völtuðu yfir Obama

Óli Tynes skrifar

Ísraelar settu á síðasta ári 10 mánaða bann við frekari húsbyggingum á Vesturbakka Jórdanár. Það var gert til þess að fá palestínumenn að samningaborðinu um varanlegan frið á svæðinu. Samningaviðræður hófust en bannið rann út í september síðastliðnum. Palestínumenn gerðu það að skilyrði fyrir frekari viðræðum að það yrði framlengt. Bandaríkjamenn lögðust á sveif með þeim og reyndu hvað þeir gátu að fá Ísraela til að framlengja bannið.

Ísraelar höfnuðu því. Þeir vildu að málið yrði hluti af samningaviðræðunum en ekki fyrirfram skilyrði. Embættismaður í bandaríska utanríkisráðuneytinu sem ekki vildi láta nafns síns getið skýrði frá því í gær að þeir væru hættir við að reyna að fá Ísraela til að skipta um skoðun. Hann sagði að þetta væri sameiginleg ákvörðun.

Palestínumenn hafa sagt opinberlega að ef Ísraelar framlengdu ekki bannið muni þeir leita alþjóðlegrar viðurkenningar þjóða heims á sjálfstæðu ríki sínu innan landamæranna sem giltu fyrir sex daga stríðið árið 1967. Í því stríði hertóku Ísraelar meðal annars Gaza ströndina og Vesturbakkann. Bæði Ísraelar og Bandaríkjamenn hafa lýst andstöðu við þá fyrirætlan.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×