Innlent

Björgvin G: Icesave í Hollandi ömurlegt hneyksli

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Björgvin G. Sigurðsson skellir skuldinni á hollensk yfirvöld.
Björgvin G. Sigurðsson skellir skuldinni á hollensk yfirvöld.

Icesave-ævintýri Landsbankans í Hollandi er hneyksli og einn ömurlegasti hluti af starfsemi bankanna undir lokin segir Björgvin G. Sigurðsson fyrrverandi viðskiptaráðherra. Hann segist ekki hafa vitað af reikningunum í Hollandi fyrr en mörgum mánuðum eftir opnun þeirra.

Icesave-reikningarnir í Hollandi opnuðu í maí 2008, aðeins örfáum mánuðum fyrir bankahrunið. Björgvin G. Sigurðsson, fyrrverandi viðskiptaráðherra, segir í nýrri bók sinni Storminum að mikils misskilnings hafi gætt í umræðunni um Icesave-hneykslið og látið hafi verið að því liggja að stofnun Icesave í Hollandi hafi verið með vitund og samþykki viðskiptaráðuneytisins eða ríkisstjórnarinnar. Því fari fjarri.

Björgvin segir í bókinni að um tilvist reikninganna hafi hvorki hann né nokkur annar ráðherra í ríkisstjórn Geirs H. Haarde vitað fyrr en síðsumars 2008 þegar Björgvin hafi spurt forstjóra FME um stöðu Icesave í kjölfar bréfs breska fjármálaeftirlitsins til Landsbankans og FME. Björgvin segir í bókinni að til að hefja starfrækslu Icesave hafi bankinn hvorki þurft heimild frá viðskiptaráðuneytinu né hafi hann með neinum hætti látið vita af starfseminni og útbreiðslu hennar.

Fullkomlega óábyrgt af hálfu Landsbankans

Björgvin segir í bókinni það hafa verið fullkomlega óábyrgt af hálfu Landsbankans að hefja innlánastarfsemi í maí 2008 í Hollandi, en hann segir opnun reikninganna í Hollandi hneyksli og einni ömurlegasta hluta af starfsemi bankanna undir lokin.

Björgvin skellir skuldinni hins vegar á hollensk yfirvöld og segir að fjármálaeftirlit gistiríkjanna hefðu getað komið í veg fyrir stofnun innlánsreikninga í útibúum, líkt og hafi gerst með slíka reikninga sem aldrei fóru af stað í Frakklandi vegna afskipta franska fjármálaeftirlitsins. Hið íslenska FME hafi einfaldlega sent tilkynningu til gistiríkisins, í þessu tilviki Hollands, sem eitt hafi getað komið í veg fyrir opnun reikninganna. Hann segir hins vegar að opnun Icesave í Hollandi hafi verið óafsakanleg og ekkert réttlæti þann ábyrgðarlausa gjörning.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×