Innlent

Vill að fjárlög séu gerð langt fram í tímann

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson vill hugsa fjárlögin til lengri tíma.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson vill hugsa fjárlögin til lengri tíma.
Formaður Framsóknarflokksins, vill að fjárlög íslenska ríkisins séu unnin í fimm eða tíu ár fram í tímann i stað þess að vinna þau fyrir hvert ár.

Miðstjórnarfundur Framsóknarflokksins fer fram á Húsavík um helgina. Í ræðu sinni í gær gagnrýndi Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, harðlega efnahagsstefnu og fjármálastjórn ríkisstjórnarinnar. Hann gerði grein fyrir máli sínu í þættinum Sprengisandi hjá Sigurjóni M. Egilssyni á Bylgunni í morgun.

„Við erum ekki að vinna fjárlagafrumvarpið rétt og með því á ég við að við erum ekki að hugsa þetta til nógu langs tíma," segir Sigmundur Davíð. Hann sagði að sparnaður í fjárlagafrumvarpinu núna gæti leitt til fjárhagslegs tjóns árin á eftir.

Þá sagði hann að það væri ekki gerður nægjanlega mikill greinarmunur á peningum sem færu annars vegar í fjárfestingu, einhverju sem geti skapað tekjur í framtíðinni, og því sem væri bara hrein og klár eyðsla. „Og það náttúrlega gefur ekki af sér góða raun til framtíðar ef menn gera ekki greinamun þar á," segir Sigmundur Davíð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×