Innlent

Segir skammarlegt að ráðherrar njóti ofurkjara

Sigríður Mogensen skrifar
Mikilvægt er að huga að því að jafna lífeyrisréttindi í landinu, segir Guðmundur Ólafsson hagfræðingur, það sé til skammar að ráðherrar njóti ofurkjara.

Alþýðusamband Íslands ætlar að setja kröfu um jöfnun lífeyrisréttinda á oddinn í kjaraviðræðunum sem framundan eru. Guðmundur Ólafsson, hagfræðingur, segir þetta brýnt réttlætismál. „Það er mjög mikilvægt að fara að vinna að því að allir landsmenn njóti svipaðra lífeyrisréttinda að menn séu ekki á einhverjum ofurlífeyri eins og ráðherrar, að þetta sé jafnað," segir Guðmundur.

Guðmundur segir að sumar stéttir hafi þurft að búa við meiri skerðingu á lífeyrisréttindum en aðrar, og nefnir í því samhengi lækna og bændur.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins nýtur fullrar ríkisábyrgðar og því skerðist lífeyrir opinberra starfsmanna ekki, þrátt fyrir mikið tap sjóðsins í hruninu. Eins og fréttastofa hefur greint frá þarf ríkið að standa skil á hundruðum milljarða inn í sjóðinn á komandi árum.

„Þegar upp er staðið eru lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna ekki til að hrópa húrra fyrir, en það má vera að þeir standi betur," segir Guðmundur. Sérstaklega beri að endurskoða réttindi ráðherra.

„Það var til skammar að láta ráðherra njóta sérkjara, þeir eiga að sitja við sama borð og aðrir, held að það sé af hinu góða að hugað verði að lífeyrisréttindum í komandi kjaraviðræðum, huga að því að lífeyrissjóðirnir verði tryggðir, þannig að menn geti ekki búist við því að misvitrir stjórnendur geti glutrað sjóðnum niður og lífeyrisþegar sitji eftir með sárt ennið, það verður einhvernveginn að stemma stigu við því," segir Guðmundur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×