Innlent

„Þetta eru hótunarstjórnmál“

Magnús Már Guðmundsson skrifar
Vigdís Hauksdóttir.
Vigdís Hauksdóttir. Mynd/Vilhelm Gunnarsson

Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, segir Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, stunda hótunarstjórnmál. Hún segir grafarlegt að þjóðþingið skuli hafa verið þvingað til að taka afdrifaríka ákvörðun í atkvæðagreiðslunni um aðildarumsókn að Evrópusambandinu í júlí á síðasta ári.

Fram kom í máli Ásmundar Einars Daðasonar, þingmanns VG, á Alþingi í dag að Jóni Bjarnasyni hefði verið hótað við umrædda atkvæðagreiðslu. Ef hann myndi ekki styðja tillögu utanríkisráðherra yrði hann ekki lengi ráðherra.

Ásmundur sagði ennfremur að Jóhanna hefði kallað þingmenn VG inn á teppið til sín og sagt að myndu þeir greiða atkvæði með tillögu um tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu væri fyrsta vinstristjórnin sprungin.

„Farið hefur fé betra. Þeir hefðu betur staðið á sannfæringu sinni þingmenn Vinstri grænna í fyrrasumar því þá værum við kannski í öðrum sporum í dag," segir Vigdís. „Þetta eru hótunarstjórnmál sem forsætisráðherra hefur svo oft stundað."

Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokksins, segir á ákvörðunin hafi verið tekin á fölskum forsendum með ólýðræðislegum hætti. Útrýma þurfi flokksræðinu. „Það er bara þannig og aðeins þannig sem við munum auka virðingu Alþingis á ný."

Ekki hefur náðst í Jón Bjarnason í kvöld þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.


Tengdar fréttir

Einar K: Beittu hótunum og kúgunum

„Niðurstaðan var fengin með hótunum og kúgunum," segir Einar K. Guðfinsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, um atkvæðagreiðsluna á Alþingi í júlí 2009 þegar samþykkt var að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Ásmundur Einar Daðason, þingmaður VG, sagði í umræðum á Alþingi í dag að Jóni Bjarnasyni, sjávarútvegs- og landbúnaðaráðherra, hefði verið hótað við atkvæðagreiðsluna. Ef hann myndi ekki styðja tillögu utanríkisráðherra yrði hann ekki lengi ráðherra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×