Erlent

Quantas kyrrsetur risaþotur sínar

Óli Tynes skrifar

Ástralska flugfélagið Quantas hefur sett flugbann á allan flota sinn af Airbus risaþotum sinn eftir að mikil sprenging varð í hreyfli skömmu eftir flugtak í gærkvöldi. Fjögurhundruð og sextíu manns voru um borð.

Airbus 380 eru stærstu farþegaþotur í heimi, þær taka mest 853 farþega. Umrædd vél var á leið frá Singapore til Sydney í Ástralíu. Fimmtán mínútum eftir flugtak varð gríðarleg sprenging í einum af fjórum hreyflum hennar. Sprengingin var svo öflug að vélarhlífin tættist af og féll til jarðar.

Flugmennirnir fengu samstundis heimild til þess að snúa aftur til Singapore til nauðlendingar. Þeir þurftu hinsvegar að fljúga í hringi í eina klukkustund meðan þeir dældu eldsneyti af vélinni. Fullhlaðnar þotur geta auðveldlega hafið sig til flugs, en þær eru of þungar til þess að lenda aftur fyrr en búið er að brenna megninu af eldneytinu.

Miklar varúðarráðstafanir voru gerðar á jörðu niðri. Allar björgunarsveitir kallaðar út og eldslökkvikvoðu dælt á flugbrautina. Lendingin tókst þó með ágætum og engan sakaði.

Quantas hefur ákveðið að hætta að flugi á Airbus 380 vélum sínum þartil búið er að rannsaka þetta óhapp. Ekki hafa borist fregnir fá öðrum félögum sem eiga þessar risaþotur. Meðal þeirra eru Air France, Lufthansa, og Virgin Atlantic.

Hægt er að fá Airbus 380 með tveim tegundum hreyfla. Quantas vélarnar eru með hreyfla frá Rolls Royce. Þessar vélar eru tveggja hæða og geta vegið mest 600 tonn í flugtaki.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×