Innlent

Ásbjörn hagnaðist um tugmilljónir

Ásbjörn Óttarsson „Ég hef verið í rekstri í 25 ár og aldrei hefur opinber aðili eða birgir tapað einni krónu á mínum rekstri,“ segir Ásbjörn. Fyrirtækið gangi vel.
Ásbjörn Óttarsson „Ég hef verið í rekstri í 25 ár og aldrei hefur opinber aðili eða birgir tapað einni krónu á mínum rekstri,“ segir Ásbjörn. Fyrirtækið gangi vel.

Ásbjörn Óttarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks í fjárlaganefnd Alþingis, greiddi sér og konu sinni 65 milljónir króna í arð frá útgerðarfélaginu Nesveri árið 2008. Hann var framkvæmdastjóri Nesvers og eini stjórnarmaður.

Greint var frá því í DV að sama ár tapaði fyrirtækið 574 milljónum króna og eigið fé var neikvætt um 157 milljónir.

Ásbjörn skýrir þetta með því að arðurinn hafi verið greiddur vegna hagnaðar ársins 2007.

Árið 2007 voru hins vegar tuttugu milljónir greiddar í arð vegna ársins 2006, samkvæmt ársreikningi. Árið 2006 var fyrirtækið rekið með tapi.

Spurður um þetta, segir Ásbjörn að greiðslurnar hafi verið reiknaðar í hlutfalli við eigið fé fyrirtækisins.

En samkvæmt ársreikningi var eigið fé Nesvers neikvætt árið 2006 um rúmar 213 milljónir.

Um þetta segist Ásbjörn ekki geta rætt af því að hann sé ekki með ársreikningana hjá sér.

Þingmaðurinn getur Nesvers í hagsmunaskráningu á vef Alþingis, en skráir hlutverk sitt þar ekki sem tekjumyndandi starfsemi, unna samhliða þingmennsku.

Ásbjörn komst á þing vorið 2009 og bendir á að hann hafi einungis haft tekjur af Nesveri fyrstu tvo mánuði ársins. Hann hafi því engar tekjur fengið, samhliða þingmennsku. Óvíst sé hvort hagnaður verði greiddur út í ár. - kóþ




Fleiri fréttir

Sjá meira


×