Öll flugumferð frá Íslandi hefur verið samkvæmt áætlun í morgun en svo gæti farið að flugvöllum yrði lokað í Danmörku í kvöld.
Samkvæmt upplýsingum frá flugstjórnarmiðstöð hefur verið flogið á flesta flugvelli í morgun og á alla áfangastaði íslensku flugfélaganna. Það gæti þó breyst seinni partinn því samkvæmt öskuspá frá Bretlandi sem snýr að dreifingu á ösku undir 20 þúsund fetum er stórt öskuský á leið til Danmerkur Gera má ráð fyrir að það verði komið þar yfir í kvöld, en óvíst er hvaða ákvarðanir flugmálayfirvöld taka þar.
Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir allt flug á vegum félagsins vera á áætlun og reiknaði með að svo yrði í dag, ef ekkert breyttist. Vélarnar þurfa þó að fara lengri leiðir í sumum tilfellum vegna öskufalls. Samkvæmt upplýsingum frá Eurocontrol fóru 22.500 farþega-og flutningaflugvélar í loftið í gær.
Elgosið í Eyjafjallajökli hefur haft sín áhrif á en tæplega eitt hundrað þúsund flugferðum var aflýst vegna þess. Talið er að flugfélög víða um Evrópu hafi tapað um 220 milljörðum íslenskra króna vegna flugbannsins.
