Innlent

Töluvert fleiri nota nagladekk í ár en í fyrra

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Reykjavíkurborg telur óþarft að nota nagladekk. Mynd/ Róbert.
Reykjavíkurborg telur óþarft að nota nagladekk. Mynd/ Róbert.
Töluvert fleiri nota nagladekk nú í nóvember en þegar notkun nagladekkja var könnuð fyrir ári síðan. Um 32% ökutækja reyndist vera á negldum dekkjum þegar talning var gerð þann 17. nóvember síðastliðinn og 68% á öðrum tegundum dekkja. Fyrir ári síðan reyndist hlutfall þeirra ökutækja á negldum dekkjum 24%. Fyrir tveimur árum var hlutfallið hins vegar 35%.

Hlutfall bifreiða á negldum dekkjum mælist yfirleitt hæst í febrúar ár hvert. Verulega hefur dregið úr notkun nagladekkja eða úr 67% í febrúar 2001 í 39% í febrúar 2010. Enn er óljóst hvort þessi fjölgun í nóvember sé vísbending um hátt hlutfall í febrúar næstkomandi.

Í frétt á vef Reykjavíkurborgar segir að borgin telji óþarft að nota nagladekk í borginni bæði vegna snjóléttra vetra og góðrar vetrarþjónustu. Nagladekk spæni upp malbik og auki líkur á svifryksmengun. Borgargötur séu yfirleitt annað hvort þurrar eða blautar en sjaldan á kafi í snjó eða ísilagðar og kannanir hafi sýnt að nagladekk séu ekki öruggari en önnur vetrardekk í borgum.

Styrkur svifryks hefur farið 25 sinnum yfir heilsuverndarmörk á árinu, þar af átta sinnum vegna öskufjúks frá Eyjafjallajökli, fjórtán skipti má rekja beint eða óbeint til bílaumferðar, tvö skipti til flugelda og eitt skipti er óútskýrt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×