Innlent

„Þetta er samstillt átak“

Að mati Berglindar standa bændur undir Eyjafjöllum, Rauði krossinn og björgunarsveitarmenn sig afar vel. Mynd/Egill Aðalsteinsson
Að mati Berglindar standa bændur undir Eyjafjöllum, Rauði krossinn og björgunarsveitarmenn sig afar vel. Mynd/Egill Aðalsteinsson
„Það standa sig allir mjög vel," segir Berglind Hilmarsdóttir, á bænum Núpi undir Eyjafjöllum, og vísar til aðgerða björgunarsveitarmanna, Rauða krossins og sveitunga hennar vegna eldgossins í Eyjafjallajökli. Hún tekur sem dæmi að björgunarsveitarmenn séu vel skipulagðir og fari á milli bæja og gangi þar í öll verk. „Þetta er samstillt átak."

Berglind segir að bændur aðstoði hvorn annan. „Menn eru að huga að dýrum þar sem fólk er ekki heima við. Til að mynda brottfluttir sem eru með hross. Það er allt dekkað. Menn voru eins og stormsveitir að fara milli bæja til að smala hver hjá öðrum."

Stangast á við staðla Evrópusambandsins

Berglind segir að í augnablikinu sé loftið sæmilega hreint. Þau reyni að huga að öllum skepnum. Búið að sé að koma þeim fyrir inni og tryggja þeim aðgang að vatni. „Við erum búin að troða þeim inn í alla kofa. Það mundi nú sennilega ekki flokkast undir góða meðferð á dýrum samkvæmt stöðlum Evrópusambandsins," segir Berglind en nauðsyn brjóti lög.

Þrátt fyrir eldgosið í Eyjafjallajökli heldur lífið sinn vanagang. Áfram þarf að mjólka kýrnar og þá segir Berglind að sæðingarmaður hafi komið á bæinn nú á tólfta tímann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×