Innlent

Vindmælingar hér á landi enn á algjöru byrjunarstigi

Þó vindmælingar í þeirri hæð sem nauðsynleg er fyrir vindorkuvirkjanir séu á byrjunarstigi hér á landi segir Úlfar að verkefnið lofi góðu. 
Fréttablaðið/stefán
Þó vindmælingar í þeirri hæð sem nauðsynleg er fyrir vindorkuvirkjanir séu á byrjunarstigi hér á landi segir Úlfar að verkefnið lofi góðu. Fréttablaðið/stefán

Þær vindmælingar sem nauðsynlegar eru til viðmiða fyrir vindmyllur eru á algöru byrjunarstigi hér á landi. Starfshópur innan Landsvirkjunar, ásamt Veðurstofu Íslands og Umhverfis­stofnun, hefur nú hafist handa við slíkar mælingar og segir Úlfar Linnet, sérfræðingur í orkuathugunum hjá Lands­virkjun, enn langt í land.

„Þau tæki sem nauðsynleg eru til mælinga í þessari hæð eru einfaldlega ekki til hér á landi,“ segir hann. „Það þarf í raun að vinna allt frá grunni og fá þá þekkingu sem við þurfum frá útlöndum. En þetta gengur vonum framar.“

Hópurinn er hluti af Icewind, samnorrænu rannsóknarverkefni sem styrkt er af Norrænu ráðherranefndinni. „Í gegnum verkefnið fáum við mikið af samböndum og þekkingu í þessum málum. Þetta er vel yfirstíganlegt vandamál,“ segir Úlfar.

Þær niðurstöður sem fengist hafa nú þegar eru unnar þannig að vinnslugeta vindmyllu er metin út frá hlutfalli nýtingartíma á hverju svæði. Þannig eru niðurstöðurnar notaðar til að greina hvaða staðir eru taldir álitlegir til framkvæmda.

Í þeim mælingum sem hafa verið gerðar nú þegar til þess að finna út mögulega staði á landinu til vindvirkjana hefur komið í ljós að Suðurlandsundirlendið virðist henta hvað best. Þó er verið að athuga fleiri staði með fjölmörg atriði í huga.

„Það fer eftir því hversu mikil orka er til staðar og hvernig samgöngur eru,“ segir Úlfar. „Einnig eru metnir tengimöguleikar inn á flutningsnet, hvort það sé byggð í nágrenninu, landrými og líkur á ísingu. Friðlýst svæði og fuglalíf eru auðvitað einnig veiga­mikil atriði.“

Frumútgáfa af svokölluðum Vindatlas er til nú þegar en uppfærðar rannsóknir verða tilbúnar eftir 2 til 3 ár. Samkvæmt fyrstu rannsóknum bendir allt til þess að hér á landi sé nægilega stöðugur vindur til virkjana. Úlfar segir þumalputtaregluna vera þá að myllurnar slökkvi á sér við 25 metra á sekúndu og slíkt sé fátítt hér á landi.

Algengustu myllurnar í Danmörku eru um 70 metra háar, en þær hæstu í heimi eru tæpir 200 metrar að hæð.

sunna@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×