Innlent

Nammibar freistar barna á leið á æfingar

Forvarnarteymið Gróska í Grafarvogi er óánægt með staðsetningu nammibarsins í Egilshöll.
fréttablaðið/anton
Forvarnarteymið Gróska í Grafarvogi er óánægt með staðsetningu nammibarsins í Egilshöll. fréttablaðið/anton

Forvarnarteymið Gróska í Grafarvogi ætlar að senda frá sér kvörtunarbréf til borgaryfirvalda, Sambíóanna og Egilshallar vegna nammibars í nýja Egilshallarbíóinu.

Sameiginlegur inngangur er fyrir þá sem ætla í bíó og þá sem stunda íþróttir í höllinni. Nammibarinn er á fyrstu hæðinni og allir geta notað hann, hvort sem þeir ætla í bíó eða ekki. Þetta telur forvarnarteymið ekki vera við hæfi, enda margir krakkar sem ganga um þetta svæði og líta nammibarinn girndaraugum á leið sinni á og af æfingum.

„Allir sem koma inn í Egilshöll, hvort sem þeir eru að fara í bíó eða að stunda íþróttir, ganga beint inn í sælgætisbarinn, popplyktina og allt sem þessu fylgir. Það er algjörlega fráleitt að setja þetta svona upp,“ segir Hera Hallbera Björnsdóttir frístundaráðgjafi.

„Þetta er íþróttamannvirki og þarna eru börn að koma á íþróttaæfingar. Þarna er líka frístundaheimili fyrir fötluð börn og þessir aðilar þurfa að fara þarna í gegn. Við erum búin að heyra óánægjuraddir vegna þessa. Foreldrar eru í vandræðum með að ná börnunum sínum þarna í gegn,“ segir hún.

Forvarnarteymið vill helst að nammibarinn verði fluttur upp á aðra hæð, þar sem bíóið er, rétt eins og raunin er í Smárabíói. „Við erum hins vegar mjög ánægð með bíóið. Það er bara fyrirkomulagið á sjoppunni sem við erum ósátt við,“ segir Hera.- fb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×