Innlent

Heilbrigðisráðuneytið bruðlar

Leiguhúsnæðið er tólf milljónum krónum dýrara en húsnæðið sem Framkvæmdasýsla ríkisins mælir með.
Leiguhúsnæðið er tólf milljónum krónum dýrara en húsnæðið sem Framkvæmdasýsla ríkisins mælir með.

Áform heilbrigðisráðuneytisins um að staðsetja sameinaða stofnun Landlæknisembættisins og Lýðheilsustöðvar í Heilsuverndarstöðinni á Barónsstíg vöktu hörð viðbrögð á þingi í fyrradag. Frumvarp um sameiningu stofnananna var til umræðu.

Ársleigan í Heilsuverndarstöðini er tólf milljónum króna dýrari en í því húsnæði sem Framkvæmdasýsla ríksins mælir með að leigt verði undir sameinaða stofnun. Er það jafnframt stærra.

„Eru þeir tímar ekki liðnir að við getum bruðlað svona með peninga?“ spurði Ásbjörn Óttarsson Sjálfstæðisflokki.

Flokksbróðir hans, Guðlaugur Þór Þórðarson, tók undir og vakti jafnframt athygli á að sautján ár væru enn eftir af núverandi húsaleigusamningi land­læknis. Sagði hann rannsóknarefni hvers vegna ríkið gerði svo langa leigusamninga.

Siv Friðleifsdóttir Framsóknarflokki sagði að af lestri umsagnar fjármálaráðuneytisins um frum­varpið væri greinilegt að fjármálaráðuneytið væri foxillt út í heilbrigðisráðuneytið.

Guðbjartur Hannesson heilbrigðisráðherra sagði til skoðunar að færa starfsemi úr ráðuneytinu yfir til nýju stofnunarinnar. Því þyrfti að gera ráð fyrir stærra rými.

Lengd leigusamninga ríkisins, án uppsagnar- og endurskoðunarákvæða, kallaði ráðherrann vandræðagang. - bþs




Fleiri fréttir

Sjá meira


×