Innlent

Icelandair fjölgar flugum til Þrándheims

Mynd/Vilhelm Gunnarsson
Vegna mikillar eftirspurnar hefur Icelandair ákveðið að efna til fjögurra aukafluga í dag til Þrándheims í Noregi. Áður hafði verið tilkynnt að farin yrðu tvö flug. Fyrsta flugið er klukkan 13, tvær flugvélar fara klukkan 14 og fjórða flugið er klukkan 15.

Eftir að tilkynnt var um aukaflug Icelandair til Þrándheims í morgun varð strax ljóst að eftirspurn var geysimikil, að fram kemur í tilkynningu frá flugfélaginu. Því var bætt við flugum og nú er ljóst að um 700 farþegar munu fara á þessum fjórum flugum til Noregs síðdegis.

Gert er ráð fyrir að flugið til Þrándheims nýtist einkum þeim farþegum sem staðsettir eru hér á landi sem strandaglópar vegna eldgossins og voru bókaðir á flug til Osló, Stokkhólms eða Kaupmannahafnar og kjósa að ferðast á leiðarenda á eigin vegum.

Annað Evrópuflug Icelandair í dag hefur verið fellt niður. Flug til og frá Bandaríkjunum er samkvæmt áætlun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×