Erlent

Gamall vasi gerði systkin að milljarðamæringum

MYND/AP

Lítið óþekkt uppboðshús í vestur London datt í lukkupottinn á dögunum þegar það fékk gamlan kínverskan vasa í sölu til sín. Vasinn var hluti af dánarbúi sem kom í hlut systkina sem ákváðu að selja vasann án þess að átta sig almennilega á virði hans.

Uppboðshaldarinn vissi að hann væri með verðmætan hlut í höndunum og bjóst við að fá allt að einni milljón punda fyrir gripinn. Á endanum seldist vasinn, sem er frá átjándu öld og frá tíma Quinlong keisara, á heilar 43 milljónir punda, eða á rúma 7,7 milljarða íslenskra króna. Þetta mun vera hæsta verð sem greitt hefur verið fyrir kínverskan listmun.

Þegar hamarinn féll og ljóst varð að systkynin voru orðin milljarðamæringar fékk systirin aðsvif og var hún aðstoðuð út til þess að fá sér ferskt loft. Hún hefur þó vafalaust náð sér fljótlega.

Lítið er vitað um sögu vasans en líklegt talið að hann hafi borist til bretlands á fjórða áratug síðustu aldar. Hvernig fjölskyldan eignaðist hann er hinsvegar ekki vitað. Kaupandinn er einnig óþekktur, en talið að um kínverskan viðskiptamann sé að ræða. Margir Kínverjar sýndu gripnum áhuga og tók uppboðið skamman tíma. Fyrsta boð var 500 þúsund pund en að hálftíma liðnum hafði hann verið sleginn á 43 milljónir punda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×