Erlent

Aspirín dregur úr líkum á krabbameini

Dagleg neysla Aspiríns getur minnkað líkur á dauðsföllum vegna krabbameins um þriðjung, ef marka má nýja rannsókn. Fjallað er um málið í fjölmiðlum víða í morgun og hafa niðurstöðurnar vakið mikla athygli.

Rannsakendur frá Oxford háskóla, sem unnu rannsóknina, segja niðurstöðurnar svo afgerandi að fólk ætti að íhuga alvarlega að taka inn lítinn skammt af aspirín á degi hverjum eftir 45 ára aldur.

Í rannsókn læknanna voru yfir 25 þúsund þátttakendur, sem tóku inn 75 milligrömm af lyfinu á degi hverjum, sem er fjórðungur eðlilegs dagskammts.

Fimm árum eftir að fólkið hóf þátttöku í rannsókninni, minnkuðu dauðsföll vegna krabbameins um 34%. Prófessor Peter Rothwell, sem leiddi rannsóknina, segir í samtali við Sky News að ef fólk vilji draga úr líkunum á því að fá krabbamein, sé ágætis byrjun að hefja inntöku á aspiríni um miðjan fimmtugsaldurinn. Þá fari hættan á krabbameini að aukast.

Rannsóknin sem var kynnt í Lancet Medical Journal, sýnir að aspirín dregur úr líkunum á krabbameini í blöðruhálskirtli um 10%, lungnakrabbameini um 30% og krabbameini í vélinda um heil 60%.

Peter Elwood prófessor við háskólann í Cardiff sem hefur rannsakað aspirín til fjölda ára segir lyfið eiga rætur sínar að rekja til trjábarkar, og það sé mjög áhrifaríkt.

Hann segir að því sé um náttúrulegt efni að ræða sem hafi áhrif á frumurnar í upphafi krabbameins. Því geti það haft áhrif á margar tegundir krabbameins, ef ekki allar, strax í upphafi.

Hinsvegar hafa margir áhyggur af blæðingum í maga sem getur verið afleiðing mikillar neyslu aspiríns. Elwood segir að einn af hverjum þúsund sem taki inn aspirín þjást af blæðingum í maga á hverju ári. Hinsvegar megi minnka þær líkur með því að drekka mjólkurglas við inntöku aspiríns.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×