Íslenski boltinn

Paul McShane: Við verðum sterkari með hverjum leiknum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Paul McShane í leiknum í kvöld.
Paul McShane í leiknum í kvöld. Mynd/Valli
Paul McShane átti mjög góðan leik með Keflavík í 1-0 sigri á Breiðabliki í Kópavoginum í kvöld. McShane var allt í öllu á miðjunni og er sannkallaður prímusmótor fyrir liðið.

„Það var mjög mikilvægt fyrir okkur að vinna fyrsta leikinn og þá sérstaklega af því að við vorum á útivelli. Þetta var kannski ekki skemmtilegasti fótboltaleikurinn að horfa á en stigin þrjú voru mikilvægust af öllu," sagði Paul McShane.

„Þetta var jafn leikur en mér fannst við skapa okkur betri og hættulegri færi. Ég held að við höfum átti sigurinn skilinn," sagði Paul sem er ánægður með að vera kominn til Keflavíkur.

„Ég fékk nokkur tilboð fá liðum en mér leyst bara vel á að fara til Keflavíkur því þeir voru með fínan mannskap. Þetta er eitt besta liðið á blaðinu á Íslandi þótt að það hafi gengi nógu vel í fyrra," sagði Paul.

„Ég vona að við getum gert góða hluti í sumar en við þurfum samt að passa okkur á að taka bara einn leik í einu. Við eigum Grindavík næst og það verður erfiður leikur," sagði Paul.

„Breiðablik er með ungt og gott lið. Ég býst við þeim í toppbaráttunni í sumar," sagði Paul um andstæðingana í kvöld en hann segir að stígandinn á undirbúningstímabilinu sé að skila sér hjá Keflavíkurliðinu.

"Það hefur gengið vel hjá okkur á undirbúningstímabilinu og við verðum sterkari með hverjum leiknum. Vonandi heldur það bara áfram hjá okkur," sagði Paul að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×