Körfubolti

Ágúst: Besti körfuboltaleikurinn í úrslitaeinvíginu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ágúst Björgvinsson, þjálfari Hamars.
Ágúst Björgvinsson, þjálfari Hamars. Mynd/Daníel
Ágúst Björgvinsson, þjálfari Hamars, var ánægður eftir 81-75 sigur sinna stelpna í fjórða leik úrslitaeinvígisins á móti með KR í Hveragerði í gær en með honum tryggði Hamarsliðið sér oddaleik.

„Ég held að allir geti verið sammála því að þetta hafi verið besti körfuboltaleikurinn í úrslitaeinvíginu til þessa. Það var allt í boði í þessum leik, bæði lið að leggja sig gríðarlega fram, fullt hús af áhorfendum og þvílík spenna. Ef þetta er eitthvað sem koma skal á þriðjudaginn þá verður enginn svikinn af því að mæta á þann leik," sagði Ágúst.

Julia Demirer átti frábæran leik og það borgaði sig greinilega að hvíla hana í þriðja leiknum því hún var með 23 stig og 26 fráköst í gær.

„Við þurftum að taka þá erfiðu ákvörðun að hvíla Juliu í síðasta leik. Það hjálpaði til í dag. Ef Julia hefði spilað síðasta leik sem hún hefði eflaust getað gert, en bara af fimmtíu prósent krafti, þá hefði hún verið fimmtíu prósent aftur í þessum leik. Í staðinn kemur hún öflug í kvöld," sagði Ágúst.

„Við vorum komnar í þá stöðu að tap hefði bara þýtt sumarfrí. Auðvitað er það draumur fyrir okkur að ná þessum úrslitum og koma þessu í oddaleik," segir Ágúst og bætir við:

„Þetta er líka draumur fyrir körfuboltann að fá annað árið í röð oddaleik um titilinn í kvennakörfunni. Á oddaleiknum í fyrra voru 1800 manns á Ásvöllum og það má alveg búast við 1800 til 2000 mans á leikinn í KR-heimilinu. Það er allt í húfi og þetta verður flottur leikur," sagði Ágúst að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×