Körfubolti

Keflavík og KR tryggðu sér sæti í úrslitaleik Lengjubikars kvenna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hildur Sigurðardóttir skoraði 30 stig fyrir KR-liðið í kvöld.
Hildur Sigurðardóttir skoraði 30 stig fyrir KR-liðið í kvöld.
Það verða Íslandsmeistarar KR og Keflavík sem mætast í úrslitaleik Lengjubikars kvenna en undanúrslit keppninnar fóru fram í kvöld. Keflavík vann tíu stiga sigur á Hamar í Hveragerði á sama tíma og KR vann tveggja stiga sigur á bikarmeisturum Hauka í DHL-höllinni.

Keflavík er þar með komið í úrslitaleik keppninnar í níunda sinn sem er met en KR-konur koma þar næstar eftir að hafa komist í úrslitaleik Fyrirtækjabikarsins í sjötta sinn í kvöld.

KR-konur unnu 61-59 sigur á Haukum en voru nærri því búnar að missa niður örugga forustu á lokamínútum leiksins. KR náði að landa sigri og fær því tækifæri til að verja titilinn á sunnudaginn.

KR-konur voru með örugga forustu fram eftir öllum leik á móti Haukum, 24-17 yfir eftir fyrsta leikhluta og með 12 stiga forskot í hálfleik, 42-30.

Haukakonur voru þó ekki á því að gefast upp því þær skoruðu átta stig í röð í upphafi fjórða leikhluta og komu sér með því inn í leikinn. Lokamínúturnar voru síðan æsispennandi en Hildur Sigurðardóttir kórónaði stórleik sinn með því að tryggja KR sigur á vítalínunni.

Hildur Sigurðardóttir var með 30 stig, 6 fráköst og 5 stoðsendingar hjá KR en Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir kom henni næst með 10 stig. Hjá Haukum var Alysha Harvin með 24 stig, 8 fráköst og 5 stoðsendingar og Ragna Margrét Brynjarsdótir og Íris Sverrisdóttir skoruðu báðar 11 stig.

Keflavíkurkonur unnu öruggan 75-65 sigur í Hveragerði þar sem þær tóku öll völd í fyrsta leikhluta og litu ekki til baka eftir það. Keflavík var 20-14 yfir eftir 1. leikhluta og var komið með 11 stiga forskot í hálfleik, 39-28.

Jacquline Adamshick var mjög öflug hjá Keflavík með 22 stig, 19 fráköst og 5 stoðsendingar en Bryndís Guðmundsdóttir bætti við 20 stigum og 12 fráköstum og Birna Valgarðsdóttir var með 10 stig.

Jaleesa Butler skoraði 21 stig og tók 13 fráköst fyrir Hamar, Slavica Dimovska var með 17sstig og Kristrún Sigurjónsdóttir skoraði 13 stig.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×