Viðskipti innlent

Ríkisendurskoðun: Ámælisvert að færa ekki björgun Sjóvár til bókar

Sjóvá.
Sjóvá.

Ríkisendurskoðun hefur óskað eftir því við fjármálaráðuneytið að það geri grein fyrir þeirri lagaheimild sem byggt var á við ákvörðun um eiginfjárframlag ríkisins til SAT eignarhaldsfélags hf., sem er í eigu ríksins, vegna björgunaraðgerða handa Sjóvá eftir hrun. Ríkið reiddi fram 11,6 milljarða til þess að koma í veg fyrir gjaldþrot Sjóvár.

Í ársskýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að viðskiptin hefðu ekki verið færð í bókhald ríksins þegar þau fór fram og telur Ríkisendurskoðun það ámælisvert.

Fjársýslan gaf þá skýringu að þar sem viðskipti vegna Sjóvár hafi flust til Eignarhaldsfélags Seðlabanka Íslands í árslok 2009 hafi þau ekki verið bókuð hjá ríkissjóði.

Framlag ríkisins til Sjóvár er til skoðunar hjá Eftirlitsstofnun EFTA (ESA). Fram kemur að það sé frummat ESA að með þessum viðskiptum hafi íslenska ríkið leitt björgunaraðgerðir í þágu ógjaldfærs tryggingafélags. Vafi leiki á því að einkaaðilar á markaði hefðu farið út í slíka fjárfestingu.

Ríkisendurskoðun óskaði eftir því við fjármálaráðuneytið að það gerði grein fyrir þeirri lagaheimild sem byggt var á við ákvörðun um eiginfjárframlag ríkisins til SAT eignarhaldsfélags. Ráðuneytið hefur ekki upplýst um þetta samkvæmt skýrslunni.

Ríkisendurskoðun telur því óljóst á hvaða lagaheimild ákvörðunin byggði. Ríkisendurskoðun telur íslenska ríkið ekki hafa borið lagalega skyldu til að bjarga félaginu.

Í minnisblaði frá Fjármálaeftirlitinu kom fram að gjaldþrot félagsins hefði alvarlegar afleiðingar.

Tekið var fram að m.a. myndu viðskiptamenn félagsins líklega tapa hluta af kröfum sínum og traust til vátryggingastarfsemi hér á landi myndi minnka til muna. Áhrifin á endurtryggingasamninga annarra vátryggingafélaga yrðu neikvæð sem gæti leitt af sér hærri iðgjöld.


Tengdar fréttir

Hörð gagnrýni á reikningsskil og fjármálastjórn ríkisins

Ríkisendurskoðun hefur sett fram harða gagnrýni á reikningsskil og fjármálastjórn ríkisins. Gagnrýnt er að ekki skuli getið um tilteknar skuldbindingar í ríkisreikningi. Athugasemd er gerð við ráðstöfun fjár sem fékkst við sölu Lánasjóðs landbúnaðarins og að ekki sé ljóst á hvaða lagaheimild framlag til endurreisnar Sjóvár byggðist svo dæmi séu tekin.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×