Sport

Favre nær líklega ekki að byrja í 300 deildarleikjum í röð

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Favre gengur um með miklar umbúðir þessa dagana.
Favre gengur um með miklar umbúðir þessa dagana.

Bandarískir fjölmiðlar hafa farið mikinn alla vikuna vegna frétta um að Brett Favre, leikstjórnandi Minnesota Vikings, missi hugsanlega af leiknum gegn New England Patriots um helgina.

Það er svo sem ekkert sérstaklega merkilegt að íþróttamaður missi af leik en í þessu tilviki er það stórmerkilegt.

Favre hefur nefnilega verið byrjunarliðsmaður í 291 leik í röð sem er einstakt met í sögu NFL. Sérstaklega í ljósi þess að tímabilið er stutt, íþróttin harkaleg og meiðsli því afar tíð. Reyndar hefur Favre leikið 315 leiki í röð þar sem leikir í úrslitakeppni eru ekki inn í hinni tölunni.

Hinn 41 árs gamli Favre er með brákaðan ökkla og hefur gengið um með miklar umbúðir alla vikuna og ekkert æft. Sagt er að það sé óðs manns æði að spila í slíku ástandi.

Sjálfur vill hann endilega byrja leikinn þar sem hann stefnir að því að ná 300 leikjum í röð. Ekki er samt víst að félagið leyfi honum það.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×