Innlent

Hvergi fleiri skráðir í stjórnmálaflokka

Gunnar Helgi Kristinsson stjórnmálafræðiprófessor
Gunnar Helgi Kristinsson stjórnmálafræðiprófessor
Um 42 prósent íslenskra kjósenda, tæplega 100 þúsund manns, eru skráð í stjórnmálaflokka. Hlutfallið er töluvert hærra en dæmi eru um annars staðar. Þetta er meðal þess sem kemur fram í grein Gunnars Helga Kristinssonar, prófessors í stjórnmálafræði, sem birtist í ritinu Stjórnmál og stjórnsýsla sem kemur út í dag.

„Slíkar tölur eru ekki til í neinum öðrum löndum. Það land sem hefur verið talið með flesta meðlimi í stjórnmálaflokkum er Austurríki með um sautján prósent, og svo Finnland með ellefu prósent. Við erum sem sagt með fjórfalt hærra hlutfall en Finnar," segir Gunnar Helgi.

Hann segir að talan 42 prósent komi úr meðlimaskrám stjórnmálaflokkanna, en í könnunum segjast 27 prósent kjósenda vera í flokki. „Ef þú spyrð hvort fólk sé virkt í flokkunum er hlutfallið tólf prósent." Gunnar Helgi bað fólk sem þekkir til flokkanna að meta hversu margir væru virkir. „Með þeim hætti komst ég niður í tölu sem er um 1,1 prósent. Úr 42 í 1,1 prósent, það er dálítið fall. Það segir okkur sennilega að þessar tölur endurspegla ekki sams konar veruleika og tölur í öðrum löndum.

Gunnar Helgi segir langsamlega líklegustu skýringuna á tölunum vera prófkjör, sem laði gríðarlegan fjölda fólks inn á flokksskrárnar. „Flokkarnir gera í vaxandi mæli kröfu um að þú sért meðlimur og það þýðir að flokksskrárnar bara bólgna, en vegna þess að það eru engar kröfur gerðar til þín sem flokksmanns hefur fólk ekkert fyrir því að segja sig úr flokkunum aftur. Ég þekki sjálfur fjölda fólks sem er í öllum flokkunum. Það er engin fyrirstaða, engin gjöld, engin krafa um að þú gerir neitt, engin hugmynd um einhverjar skyldur við flokkinn svo þetta eru bara frígæði."

Við fyrstu sýn gæti þetta sýnst vera sérstakt styrkleikamerki en Gunnar Helgi telur að því sé einmitt öfugt farið og þetta sé veikleikamerki á því lýðræðislega starfi sem á að eiga sér stað innan stjórnmálaflokka. Þetta drepi meðlimastarfið í flokkunum, þeir verði bara eins og aðrir kjósendur. „Fyrir meðlimi lítur þetta þannig út: ef mig langar í pólitík af hverju ætti ég að fara þá leið að leggja á mig starf fyrir flokkinn þegar það væri sennilega miklu snjallari leið að fá vinnu sem sjónvarpsfréttamaður eða eitthvað slíkt, verða þekkt andlit, vinna síðan prófkjör. Það er miklu betri leið ef þig langar í pólitík. Það er ekki gott fyrir flokkana því það þýðir að það er enginn til staðar til að sinna þessu daglegu starfi."

thorunn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×