Innlent

150 þúsund manns vildu eyða jólunum í Reykjavík

Undanfarinn mánuð hefur Höfuðborgarstofa í samstarfi við Icelandair boðið erlendum Reykjavíkurvinum að taka þátt í leiknum Win a trip to Reykjavík in December á ferðavefsvæði Reykjavíkurborgar www.visitreykjavik.is með það að markmiði að kynna Reykjavík sem spennandi áfangastað á aðventunni.

Í tilkynningu frá borginni segir að metþáttaka hafi verið í leiknum að þessu sinni. Leikurinn fór fram á netinu, með tölvupóstum og kynntur á ferðakaupstefnunni World Travel Mart í London og í Flugstöð Leifs Eiríkssonar, en 144.522 manns frá helstu ferðamannamörkuðum landsins í Norður Ameríku og Evrópu tóku þátt.

„Fólk var beðið að svara þremur laufléttum spurningum og áttu þannig möguleika á að vinna flug fyrir tvo með Icelandair frá einhverjum af áfangastöðum félagsins, gistingu fyrir tvo á Hilton Reykjavík Nordica, ferð fyrir tvo í Bláa lónið, jólamáltíð á Einari Ben og Gestakort Reykjavíkur sem veitir aðgang að sundlaugum borgarinnar, söfnum og Strætó."

Dregið var í gær en sú heppna heitir Céline Obrysllbut frá Frakklandi, að því er fram kemur í tilkynningunni. „Reykjavík í Desember hefur tekið miklum stakkaskiptum á nokkrum árum hvað varðar framboð á ýmiskonar jólatengdri afþreyingu. Jólamarkaðir af ýmsu tagi eru starfræktir víðsvegar á höfuðborgarsvæðinu. Esjustofa mun, í samstarfi við Póstinn, setja upp póstkassa fyrir bréf til sveinka ásamt skemmtilegri og fjölskylduvænni jólasveinadagskrá í skóginum við Esjurætur. Eins og kunnugt er bjóða fjölmargir veitingastaðir upp á jólahlaðborð og jólamatseðla, tónleikar eru út um allt og fjölmargir staðir fara í sérstakan jólabúning."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×