Erlent

Vísindamenn við CERN ætla að búa til Stóra Hvell

Vísindamenn sem vinna við sterkeindahraðal CERN undir fjöllunum á landamærum Sviss og Frakklands ætla sér að búa til Stóra Hvell.

Tekið skal fram að hér verður um örútgáfu að ræða af Stóra Hvelli og engin hætta er á ferðum að sögn vísindamannanna. Samkvæmt frétt um málið á vefsíðu BBC ætla vísindamennirnir að láta blýeindir rekast saman á gífurlegum hraða.

Sjálfur áreksturinn varir aðeins þúsund milljarðasta brot úr sekúndu en hitinn sem myndast er milljónfalt hitastigið í kjarna sólarinnar.

Við svo hátt hitastig bráðna jafnvel róteindir og nifteindir og mynda þykka súpu annarra agna. Þá súpu vilja vísindamennirnir skoða nánar. Hún gæti sýnt frammá aðstæður í himingeiminum skömmu eftir hinn upprunalega Stóra Hvell fyrir hátt í 14 milljörðum ára síðan.

Sterkeindahraðall CERN var síðast í fréttum í sumar þegar tilraunir þar leiddu menn á sporið af svokallaðir Higgs öreind en hún hefur oft verið nefnd guðseindin og talin geta útskýrt upphaf alheimsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×