Innlent

Össur fundaði með Kínverja um risahótel á Grímsstöðum

Dettifoss. Myndin er úr safni.
Dettifoss. Myndin er úr safni.
Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra átti fund með Huang Nubo, stjórnarformanni kínverska fjárfestingarfyrirtækisins Zhongkun Group, í dag.

Huang Nubo greindi ráðherranum frá fyrirætlunum fyrirtækisins um að fjárfesta í umhverfistengdri ferðaþjónustu á Íslandi, og taka þátt í uppbyggingu ferðaþjónustu í samstarfi við íslensk stjórnvöld.

Fyrirtækið hefði sérstaklega áform um hótelrekstur, bæði í Reykjavík og á Norðausturlandi. Um þessar mundir ynni fyrirtækið að verkefni fyrir norðan sem m.a. tengdust Grímsstöðum á Fjöllum og yrðu þær fyrirætlanir að veruleika hygðist fyrirtækið leggja sitt af mörkum, í samstarfi við stjórnvöld, til að tengja saman meginsvæði Vatnajökulsþjóðgarðs við land þjóðgarðsins í Jökulsárgjúfrum.

Ennfremur kom fram að fyrirtækið er reiðubúið til að afsala sér vatnsréttindum í Jökulsá á Fjöllum og að verkefnið yrði að öllu leyti unnið í náinni samvinnu við íslensk stjórnvöld og heimamenn.

Stöð 2 greindi frá málinu í gærkvöldi en þar kom fram að Kínverjinn væri heillaður af þessu svæði, ekki síst Jökulsársgljúfrum og Dettifossi, og sé tilbúinn að fjárfesta þar í ferðaþjónustu fyrir háar fjárhæðir, sem hlaupi á milljörðum króna. Meðal hugmynda væri að reisa risahótel á Grímsstöðum á fjöllum.

Utanríkisráðherra sagðist fagna erlendri fjárfestingu og uppbyggingu í ferðaþjónustu, sér í lagi á landsbyggðinni, en m.a. lægi fyrir að sveitarfélagið Norðurþing hefði tekið vel í hugmyndir fyrirtækisins.

Það þyrfti þó að skoða hvert verkefni vandlega í samvinnu allra hlutaðeigandi aðila og hafa náið samráð um næstu skref. Til þess væru íslensk stjórnvöld svo sannarlega reiðubúin.


Tengdar fréttir

Kínverji vill reisa risahótel á Grímsstöðum á Fjöllum

Kínverskur auðjöfur hefur kynnt sveitarstjórnarmönnum á Norðausturlandi áform um milljarða fjárfestingu í ferðaþjónustu á svæðinu, sem fela meðal annars í sér byggingu stór hótels á Grímsstöðum á Fjöllum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×