Innlent

Ráðherra rúntar á vetnisbíl

Katrín mætti á forláta vetnis-bifreið á fund í gær.
Katrín mætti á forláta vetnis-bifreið á fund í gær.
Katrín Júlíusdóttir, iðnaðarráðherra, mætti á óvenjulegu farartæki á ríkisstjórnarfund í gær. Um er að ræða Hyundai Tuscon jeppling sem gengur fyrir vetni.

Katrín sagði bílinn rúmgóðan og kraftmikinn. „Það var alveg frábært að keyra hann," sagði hún og taldi að vel væri hægt að keyra á honum um landsbyggðina, það eina sem vantaði væru áfyllingarstöðvar.

Katrín hefur áður prufað að keyra rafmagnsbíl. Hún segir bílana tvo mjög ólíka, rafbíllinn væri minni og ekki jafn-kraftmikill. Hann hentaði vel í innanborgar ráp. Vetnisbíllinn hentaði betur til lengri ferða, en hann drífur 600 km á fullum tanki.

Katrín hyggst prufa bíla með fleiri orkugjöfum í framtíðinni, t.d. metanbíla og lífdísel. „Þetta er nú það sem koma skal," segir hún. „20. öldin var öld olíunnar; 21. öldin verður öld lífrænna orkugjafa."

Orkuskiptaáætlun verður eitt af stóru málunum í iðnaðarráðuneytinu í vetur. Í vor samþykkti Alþingi þá stefnu að árið 2020 myndu 10% af orku í samgöngum koma frá endurnýjanlegum orkulindum. Um þetta var stofnað klasasamstarf, Græna Orkan, til að koma á sambandi milli þeirra sem fást við orkuskipti í samgöngum, efla þekkingu á orkugjöfum og fleira. Iðnaðarráðherra hefur forgöngu um verkefnið. „Þess vegna er alveg sjálfsagt að ég prófi þetta allt," segir Katrín.

Hyundai sem framleiðir bílinn vilja sjá hvernig hann höndlar erfiðar, skandinavískar aðstæður. Iðnaðarráðuneytið fékk hann því til prufu í nokkra daga. Hann var fluttur til landsins fyrir milligöngu Íslenskrar NýOrku, en Skandinavísku vetnisvega-samtökin eiga hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×