Innlent

Segja frekari niðurskurð bitna á þjónustu

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Hjúkrunarráð Landspítalans segir að frekari niðurskurður muni koma niður á þjónustu Landspítalans.
Hjúkrunarráð Landspítalans segir að frekari niðurskurður muni koma niður á þjónustu Landspítalans.
Hjúkrunarráð Landspítalans varar eindregið við frekari niðurskurði á fjárveitingum til Landspítalans. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem Hjúkrunarráðið sendi frá sér í morgun. Halli á fjárlögum var sem kunnugt er um helmingi meiri en lagt var upp með á síðasta ári og þykir líklegt að bregðast verði við því með auknum álögum og meiri niðurskurði á næsta ári.

Hjúkrunarráð Landspítalans, sem skipað er öllum hjúkrunarfræðingum á stofnuninni,  segir að undanfarin ár hafi starfsfólk spítalans tekist á við mikla endurskipulagningu á þjónustu og lagt metnað sinn í að niðurskurður á fjárveitingum komi sem minnst niður á öryggi sjúklinga. Hagræðingaraðgerðir hafi haft mikil áhrif á kjör og starfsumhverfi allra starfsmanna. Fækkun starfsfólks um 600 á stuttum tíma hafi aukið vinnuálag á þá sem eftir eru. Ljóst sé, að ekki sé hægt að fækka starfsfólki meira án beinnar þjónustuskerðingar við sjúklinga.

Þá bendir Hjúkrunarráðið á að Landspítalinn sé mikilvæg menntastofnun sem sinni rúmlega 1100 nemendum á ári. Í þrengingum undanfarinna ára hefur starfsfólk sinnt kennslustörfum af kostgæfni, þrátt fyrir verulega aukið vinnuálag.

Hjúkrunarráðið hvetur velferðarráðherra til að leita allra leiða til að komast hjá meiri niðurskurði á Landspítala, stærsta og mikilvægasta sjúkrahúsi landsins. Minni fjárveiting muni fela í sér beina skerðingu á þjónustu við sjúklinga og ógna öryggi þeirra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×