Innlent

Færri hreindýr skotin á þessu ári

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Hreindýraveiðikvótinn minnkar frá fyrra ári.
Hreindýraveiðikvótinn minnkar frá fyrra ári.
Veiðikvóti á hreindýr minnkar um 27% á þessu ári. Heimilt verður að veiða 1.001 hreindýr í ár samkvæmt ákvörðun umhverfisráðuneytisins að fengnum tillögum Umhverfisstofnunar og Náttúrustofu Austurlands. Heimilt var að veiða 1.272 dýr á liðnu ári. Helsta ástæða þess að kvóti minnkar milli ára er að færri dýr fundust við talningu á Fljótsdalsheiði, samkvæmt tilkynningu frá umhverfisráðuneytinu.

Líkt og undanfarin ár er tarfaveiði heimil frá og með 15. júlí til og með 15. september en þó með þeim fyrirvara að fram til 1. ágúst séu tarfar ekki veiddir ef þeir eru í fylgd með kúm eða ef veiðar trufla kýr og kálfa í sumarhögum.Veiði á kúm er heimil frá og með 1. ágúst til og með 20. september. Veturgamlir tarfar eru alfriðaðir og miðast tarfaveiði því við tveggja vetra og eldri tarfa. Í ár verður heimilt að veiða fleiri tarfa en í fyrra en færri kýr.

Óheimilt verður að veiða kálfa á komandi veiðitímabili. Undanfarna vetur hafa verið lítil afföll af kálfum og því eru lífslíkur móðurlausra kálfa taldar þokkalega góðar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×