Innlent

Fólk með er­lent ríkis­fang síður á bótum en Ís­lendingar

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Diljá Mist þingmaður Sjálfstæðisflokksins kallaði eftir upplýsingunum frá fjármálaráðherra.
Diljá Mist þingmaður Sjálfstæðisflokksins kallaði eftir upplýsingunum frá fjármálaráðherra. Vísir/Vilhelm

Tilfærslur ríkisins til fólks með erlent ríkisfang eru að meðaltali lægri en til fólks með íslenskt ríkisfang.

Þetta kemur fram í svari Sigurðar Inga Jóhannsson, fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Diljá Mist Einarsdóttur, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, um tölfræði um tekjur fólks eftir þjóðerni sem var birt á vef Alþingis í gær.

Tilfærslurnar sem tekið er tillit til í þeim gögnum sem fjármálaráðherra birtir eru vaxtabætur, barnabætur, atvinnuleysisbætur, húsnæðisbætur, greiðslur frá Tryggingastofnun og félagslegur stuðningur. Á grafi sem ráðuneytið birti eru meðaltilfærslur sýndar eftir ríkisfangi og aldri.

Þar sést að fólk með evrópskt ríkisfang fær talsvert minni bætur en fólk með íslenskt en þar á milli er fólk með annað ríkisfang.

Í svarinu kemur einnig fram að ráðstöfunartekjur og eignir fólks með íslenskt ríkisfang eru umtalsvert hærri en hjá öðrum hópum sem og skuldir og hrein eign.

Fjármála- og efnahagsráðuneytið býr yfir gögnum úr álagningarskrá Skattsins fyrir alla framteljendur landsins frá árinu 2004. Þessar skrár hafa að geyma ítarlegar upplýsingar um eignir og skuldir einstaklinga ásamt tilkteknum skattgreiðslum. Í skránni eru ýmsar bakgrunnsbreytur, þar á meðal eru upplýsingar um ríkisfang. Ráðuneytið býr þannig yfir upplýsingum um tekjur, eignir, skuldir og tilteknar skattgreiðslur eftir ríkisfangi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×