Innlent

SÞ gagnrýna Íslendinga vegna mikillar rítalínnotkunar

Karen D. Kjartansdóttir skrifar
Ávana- og fíkniefnanefnd Sameinuðu þjóðanna hefur sent íslenskum heilbrigðisyfirvöldum athugasemdir þar sem mikil ávísun á rítalín hér á landi er harðlega gagnrýnd. Alltof stór hluti þessara efna lendir í höndum óprúttinna aðila að sögn geðlæknis.

Misnotkun svokallaðra metýlfenidatslyfja er orðið vandamál hér á landi. Til þessara lyfja teljast flest þau sem gefin eru við athyglisbresti og ofvirkni, en þekktast þeirra er rítalín. Það lyf þykir einkum gagnast börnum sem glíma við hegðunarraskanir vel en þykir því miður einnig eftirsóknarvert hjá fíkniefnaneytendum.

Andrés Magnússon, geðlæknir á fíknideild Landspítalans, kannast einnig við misnoktun á þessum lyfjum. Hann segir að inn á deildina komi fólk sem hafi ánetjast þessum lyfjum.

Þórarinn Tyrfingsson, yfirlæknir á Vogi sagði í samtali við fréttastofu að erfitt væri að greina hve stór hluti þessara lyfja lendir í höndum fíkniefnaneytanda en benti á að kannarnir sýna að 60 prósent þeirra sem sprauta sig velja þessi lyf sem fyrsta eða annað efni og 90 prósent þeirra sem sprauta sig hafa notað þau. Ekki liggja þó fyrir upplýsingar um hve oft þau voru notuð.

Þó má nefna að heilbrigðisráðuneytið ákvað skömmu fyrir áramót að reyna að stemma stigu við mikilli notkun ritalíns og má greina vísbendingar um að þær aðgerðir séu farnar að skila árangri. Auk þess sem enn á að herða á eftirliti með þessum lyfjum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×