Innlent

Manndráp af gáleysi í dómi

Atvikið átti sér stað undir Hafnarfjalli, skammt frá Borgarnesi.
Atvikið átti sér stað undir Hafnarfjalli, skammt frá Borgarnesi.
Ríkissaksóknari hefur ákært tæplega sextugan karlmann fyrir manndráp af gáleysi. Hann neitaði sök við þingfestingu.

Manninum er gefið að sök að hafa ekið vörubifreið með tengivagni aftan í fram úr bifreið við Hafnarfjall, án nægjanlegrar varúðar vegna aðstæðna. Hann hafi ekki gætt nægilega að hliðarbili við bifreiðina sem hann var að fara fram úr en beygt vörubifreiðinni til hægri og að hluta til í veg fyrir hana.

Afleiðingar þessa urðu þær að ökumaður bifreiðarinnar varð að víkja að hluta til út á hægri vegöxl til að forðast árekstur við vörubílinn og tengivagninn. Hann missti við það stjórn á bílnum, að því er fram kemur í ákæru, svo hann fór margar veltur á veginum. Ökumaðurinn hlaut áverka á brjóstholi með fjöldamörg rifbrot, sprungu í bringubeini og blæðingu inn við lunga og heila. Hann lést þremur dögum síðar eftir legu og lyfjagjöf vegna áverkanna á sjúkrahúsi.

Í málinu er gerð einkaréttarkrafa á hendur vörubílstjóranum þess efnis að hann greiði fimm milljónir króna í skaðabætur.- jss



Fleiri fréttir

Sjá meira


×