Innlent

Lýsir yfir framboði til formanns VR

Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir.
Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir.

Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir, nemi í alþjóðaviðskiptum og stjórnarmaður í VR hefur ákveðið að bjóða sig fram til embættis formanns félagsins. Kosningin fer fram í mars en þegar hefur Stefán Einar Stefánsson siðfræðingur lýsti yfir framboði. Ekki liggur fyrir hvort núverandi formaður, Kristinn Örn Jóhannesson, sækist eftir embættinu að nýju.

Guðrún Jóhanna segist hafa tekið ákvörðunina „vegna fjölda áskorana". Hún segir tíma til kominn til að kröftug kona sem sé „óhrædd við að berjast opinberlega að kjaramálum félagsmanna, hvort sem það er í formi launa eða leiðréttingu lána, leiði VR á þessum erfiðu tímum."

Hún segist hafa haft það sem forgangsmál í sinni stjórnartíð hjá VR að efla gegnsæi, auka heiðarleika og hvetja verkalýðsforystuna til að taka afstöðu með félagsmönnum á sýnilegan hátt. „Þessari vinnu vil ég halda áfram og gefa VR rödd sem talar máli félagasmanna óháð því hvaða stjórnmálaflokkur situr við völd. Verkalýðsfélögin eiga að vera óháð allri pólitík en þannig er hægt að hámarka ávinning félagsmanna."

Guðrún segist hlakka til að taka þátt í þessum kosningum sem eru framkvæmdar í fyrsta skipti með nýsettum lögum er marki tímamót í sögu félagsins. „Félagsmönnum er nú gefinn kostur á að velja sér fólk til trúnaðarstarfa með lýðræðislegum hætti en það verk var fyrsta skrefið í að opna félagið og auka þar með lýðræðið."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×