Innlent

Hafa ekki nýtt svigrúmið til að afskrifa skuldir heimila

Fjármálastofnanir hafa ekki nýtt það svigrúm sem þær hafa til að afskrifa skuldir heimila að mati Lilju Mósesdóttur, þingmanns. Aðeins um fjögur prósent af heildarafskriftum bankanna hafa farið til einstaklinga og heimila.

Á árunum 2009 til 2010 afskrifuðu viðskiptabankarnir þrír rúma fimm hundruð milljarða króna af skuldum heimila og fyrirtækja. Þetta kemur fram í svari efnahags og viðskiptaráðherra við fyrirspurn Einars K. Guðfinnssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokks.

Af þessum fimm hundruð milljörðum eru rétt rúmir tuttugu og tveir milljarðar tilkomnir vegna afskrifta á skuldum heimilanna eða um fjögur og hálft prósent af heildarafskriftum.

„Ef maður lítur á hagnaðartölur bankanna þá hafa þeir töluvert svigrúm til að skrifa niður lánin. Hagnaðurinn er tilkominn af því að þeir hafa verið að uppfæra verðmæti lánanna eða eigna sinna. Þessi uppfærsla hefði átt að fara beint til heimilanna en hefur ekki gert það," segir Lilja Mósesdóttir, þingmaður.

Efnahags- og viðskiptaráðherra, segir að skuldaúrvinnslu sé ekki lokið og því eigi þessi upphæð eftir að hækka.

„Stefnan er algjörlega skýr og það er í sjálfu sér ekki hægt að gera meira en að laga skuldir að greiðslugetu og eignavirði. Það er hin skýra krafa og fjármálafyrirtækin eiga að gera það. Þau eiga að gera það hratt, þau eiga ekki að drolla og þau eiga að mæta viðskiptavinum sínum á sanngirnisgrundvelli."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×