Erlent

Gaddafí ekki kominn til Níger

mynd/AP
Yfirvöld í Níger hafa staðfest að þungvopnuð bílalest hafi komið yfir landamærin frá Líbíu. Þau fullyrða hinsvegar að Múammar Gaddafí fyrrverandi leiðtogi landsins hafi ekki verið með í för.  Talið er að meirihluti þeirra sem fóru yfir landamærin hafai verið afrískir hermenn sem stutt hafi Gaddafí í baráttunni við uppreisnarmenn síðustu mánuði.

Talsmaður Gaddafís fullyrti í gærkvöldi að hann væri enn í Líbíu en hann hefur svarið þess eið að berjast til síðasta blóðdropa.

Uppreisnarmenn segja að lestin hafi lagt af stað frá bænum Jufra í Líbíu sem enn er undir stjórn stuðningsmanna einræðisherrans. Þeir fullyrða ennfremur að mikið magn gulls og peninga hafi verið flutt með lestinni.

NATO hefur ekki vilja tjá sig um málið, en fréttaskýrendur segja augljóst að NATO hafi gefið leyfi fyrir því að lestin færi yfir landamærin því svo stór bílalest sé auðvelt skotmark fyrir herþotur bandalagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×